Hafið

Hafið – Öndvegissetur gefur út Vegvísi um vistvænan sjávarútveg og haftengda starfsemi á Íslandi

Hafið er sú matarkista sem reynst hefur okkur Íslendingum drjúg í aldanna rás og við byggjum enn, sem þjóð, að stórum hluta afkomu okkar á aðgengi að fjölbreyttu og kröftugu lífríki í heilbrigðu hafi. Síaukin mengun og súrnun sjávarvatns vegna hlýnunar jarðar ógna lífríki hafsins með miklum og að mörgu leyti ófyrirséðum afleiðingum og boðar það ekki gott fyrir framtíð lítillar sjávarútvegsþjóðar á borð við Ísland. Grípa þarf tafarlaust til aðgerða og endurhugsa hvernig við nýtum og umgöngust hina miklu auðlind sjávarins.

Hafið – Öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins hefur gefið út Vegvísi um vistvænan sjávarútveg og haftengda starfsemi á Íslandi, vandað og fróðlegt smárit með margvíslegum upplýsingum um stöðu hafsins í samhengi við Ísland. Í Vegvísinum er meðal annars tæpt á því hvernig aukin notkun á endurnýjanlegri orku í sjávarútvegi og stafrænni tækni við mengunareftirlit getur dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og mengun í sjávarvatni. Þá er rakið hvernig stafræn tækni, til að mynda hugbúnaðarlausnir Klappa og rafrænu skipadagbækurnar okkar, nýtast við eftirlit með lögfylgni skipa, myndun úrgangs og skólps um borð í skipum og skil á slíku til hafna og eins með losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Í inngangsorðum Vegvísisins segir meðal annars:

„Í loftslagsmálum felst ávinningur aðgerða jafnan í samfélagslegum gæðum en frumkvæði að viðbrögðum og beinn kostnaður fellur oft á einstaka aðila, ýmist opinbera eða einkaaðila. Mikilvægt er að tryggja raunhæfar aðgerðir og hámarka ávinning fjármuna sem til þeirra er varið. Til þess að þetta megi verða er alger nauðsyn að virkja þá aðila í hverjum málafokki, sem koma beint að viðkomandi þáttum, þvert á samfélagið.“

Þvert á samfélagið. Það er mikilvægt að íslenskt þjóðfélag vinni að því, á öllum stigum, að vernda lífríki og heilbrigði hafsins. Við mælum með að allir, jafnt lærðir sem leikmenn, kynni sér Vegvísinn og vonum að hann gagnist bæði einstaklingum og fyrirtækjum; hann er krökkur af gagnlegum og kjarnyrtum upplýsingum á aðgengilegu og auðmeltu máli, auk þess sem lagðar eru til fjöldamargar tillögur að aðgerðum og betrumbótum.

Hlekkur á pdf-útgáfu Vegvísisins.

DEILDU ÞESSARI GREIN

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on print
Share on email

Eldri greinar

Close Menu