Go to frontpage
Go to frontpage

Deila grein

23. september 2019 Grein

Á spjalli við Klappir: Falasteen Abu Libdeh

Falasteen Abu Libdeh starfar sem sérfræðingur hjá Eimskip og fæst meðal annars við umhverfismál fyrirtækisins. Við plötuðum hana í stutt spjall og byrjuðum á því að inna hana eftir því hvort Eimskip hefði markað sér skýra stefnu í umhverfismálum.

Klappir

Svarið er já: „Eimskip er einn stærsti vinnustaður á landinu og við teljum mikilvægt að fyrirtæki í okkar stærðargráðu séu til fyrirmyndar,“ svarar Falasteen án þess að hika. Slík fyrirtæki ættu að sjálfsögðu að vera leiðandi í umhverfismálum á vinnumarkaðnum.

„Það er mikilvægt að fyrirtæki séu meðvituð um áhrif sín á umhverfi og samfélag og setji sér skýra stefnu í þeim málum,“ heldur hún áfram. „Eimskip undirritaði í nóvember 2015 yfirlýsingu um loftslagsmál, ásamt eitt níutíu og níu öðrum fyrirtækjum og stofnunum, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum og mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðuna.

Margra ára frjótt samstarf við Klappir

Eimskip hefur um árabil unnið að því í samstarfi við Klappir að minnka vistsporið af rekstri sínum og það með góðum árangri.

„Strax í upphafi lögðum við áherslu á rafvæðingu nauðsynlegrar söfnunar og úrvinnslu gagna vegna umhverfismála í samstarfi við Klappir Grænar Lausnir hf. Við erum stolt af árangrinum sem náðst hefur en kolefnisspor okkar hefur dregist saman um 12% frá árinu 2015 til 2018.“

„Við sjáum rafrænar dagbækur, eins og þær sem Klappir bjóða upp á, sem framtíðina og við erum afar stolt af þessu verkefni sem við unnum í samvinnu við Klappir. Með nýtingu rafrænna dagbóka spörum við tíma hjá áhöfnum, minnkum pappírsnotkun og getum nýtt upplýsingar í rauntíma.“

Gögnin nýtast okkur vel til að fylgjast með hvar við stöndum gagnvart okkar umhverfismarkmiðunum. Rauntímagögn gefa okkur möguleika á að bregðast eins fljótt við og þörf krefur. Eins hjálpar þetta áhöfnum okkar að fylgjast með olíueyðslu sem skiptir miklu máli við markmiðasetningu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Falasteen kveður meginmarkmiðið hjá Eimskip vera að minnka kolefnisspor fyrirtæksins um 40% á flutta einingu fyrir árið 2030.

Viðurkennir að hafa ekki alltaf verið umhverfissinnuð sjálf

Innt eftir því hvort hún hafi alltaf borið umhverfismálin fyrir brjósti viðurkennir Falasteen að svo sé alls ekki. „Það gerðist í raun ekki fyrr en ég fór að vinna í þessum málaflokki,“ segir hún og brosir. „Ég verð alltaf þakklát Eimskip fyrir að treysta mér fyrir þessum stóra málaflokki.“

Hún segist vinna að því að taka hægt og bítandi upp umhverfisvænni lifnaðarhætti í daglegu lífi. „Ég hef bætt mig í flokkun sorps og reyni að sniðganga plast. Þá tek ég alltaf umræðuna um kolefnissporið við samstarfsfélaga mína, vini og ættingja þegar þeir þurfa að ferðast.“

Hún kveðst þakklát reynsluríkum samstarfsfélögum sínum hjá Eimskip, sem margir hverjir hafi miðlað til hennar umfangsmikilli þekkingu sinni á sviði umhverfismála. „Eimskip var eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að marka sér stefnu í umhverfismálum. Það var árið 1991. Hér innanhús er því mikil reynsla og þekking,“ segir hún.

Umhverfismarkmið sem spanna allan reksturinn

Í dag tekur umhverfisátak Eimskips fyrir hvern einasta anga af rekstrinum. Sorplosun frá skipum er haldið í lágmarki; umhverfisvæn botnmálning er notuð á skipin; mælingar eru gerðar á skilvirkni skipanna hvað snertir eldsneytisnotkun í því skyni að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda; notaðar eru umhverfisvænar smurolíur á búnað sem liggur að sjó; og tvö ný gámaskip séu í smíðum í Kína, sem verða mun umhverfisvænni en eldri skip félagsins og meðal annars gædd TIER III vélum sem eru sérstaklega hannaðar til að draga úr útblæstri köfnunarefnis út í andrúmsloftið. Þróunin sé því öll í rétta átt, segir Falasteen. Öll fyrirtæki, bæði hér heima og á alþjóðlega vísu, þurfi þó að halda áfram að gera betur, sérhvern dag, til að snúa samfélögum okkar af braut sívaxandi mengunar og í átt að umhverfisvænni og sjálfbærari framtíð.

Falasteen endar spjallið á bjartsýnislegri nótu þegar hún er spurð að því hvernig hún sjái Ísland fyrir sér árið 2050.

„Ég vona að við sem samfélag stefnum í rétta átt,“ segir hún. „Fólk er orðið miklu meðvitaðra um umhverfismál og neikvæðu áhrifin af lífsstíl okkar.“

(Ljósmynd af Falasteen: Friðrik Friðriksson)

Klappir23. september 2019

Deila grein