Go to frontpage
Go to frontpage

Deila grein

14. desember 2022 Grein

CSRD og ESRS við sjóndeildarhringinn

Ný Evróputilskipun og meðfylgjandi skýrslugerðarstaðlar munu skylda 49.000 fyrirtæki til að skila ítarlegum sjálfbærniskýrslum með árlegu uppgjöri. Verður þú tilbúinn?

Björn Atli Davíðsson

Bakgrunnur

Þann 10. nóvember 2022 samþykkti Evrópuþingið nýja tilskipun um sjálfbærniuppgjör og skýrslugerð fyrirtækja (Corporate Sustainability Reporting Directive - CSRD). Til stendur að tilskipunin verði birt og taki gildi snemma árs 2023. Tilskipunin CSRD er Evróputilskipun, þ.e. bindandi fyrirmæli Evrópuþingsins sem setja fram markmið sem aðildarríkjum ESB er skylt að ná. Tilskipunin setur þær lagalegu skyldur á fyrirtæki að gera ítarlega grein fyrir þáttum sem lúta að umhverfi, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS).

Samkvæmt CSRD verður fyrirtækjum, sem tilskipunin nær til, lagalega skylt að tilkynna samkvæmt evrópskum sjálfbærniskýrslu stöðlum (ESRS). CSRD miðar að því að færa sjálfbærniskýrslugerð á sama plan og fjárhagsskýrslur og auka ábyrgð evrópskra fyrirtækja á eigin umhverfismálum. Tilskipunin er þannig mikilvægur liður í vegferð ESB að meginmarkmiði Græns samnings fyrir Evrópu (e. Green Deal), að Evrópa verði fyrsta loftslagshlutlausa hagkerfi heimsins fyrir árið 2050.

ESRS í hnotskurn

CSRD er í stuttu máli, tilskipun sem mun krefjast þess að fyrirtæki gefi ítarlega skýrslu um sjálfbærni sína. ESRS (European Stustainability Reporting Standards) eru aftur á móti nýtt staðlasafn sem er nokkurs konar viðbót við CSRD og fjallar um umhverfis-, félags- og stjórnarhætti og fela í sér leiðbeiningar til fyrirtækja um söfnun gagna og skýrslugerð sem byggir á viðmiðinu um tvöfalt mikilvægi (e. double materiality), sem felur í sér að fyrirtæki munu þurfa að meta og upplýsa um þætti í rekstri sínum sem lúta að samfélagsáhrifum samhliða hefðbundnum fjárhagslegum þáttum.

ESRS drögin voru þróuð af EFRAG, European Financial Reporting Accounting Group sem var skipaður tæknilegur ráðgjafi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins . Drög EFRAG voru lögð fyrir framkvæmdastjórnina þann 23. nóvember 2022 eftir samráð við evrópskan almenning og er hægt að nálgast þau á þessari vefslóð. Til stendur að Framkvæmdastjórnin samþykki drögin að ESRS sem framseldar gerðir (e. delegated acts) fyrir 30. júní 2023.

Hverja snertir þetta?

Áætlað er að 49.000 evrópsk fyrirtæki muni falla undir CSRD og verða fyrir beinum áhrifum, sem er aukning úr 11.700 fyrirtækjum sem þegar falla undir tilskipunina um ófjárhagslega skýrslugerð (NFRD).

Þessi áætlaði fjöldi fyrirtækja, 49.000, felur í sér öll fyrirtæki sem skráð eru á markað innan Evrópu, þar á meðal lítil og meðalstór fyrirtæki en að undanskildum örfyrirtækjum. CSRD gildir einnig um stór fyrirtæki óháð því hvort þau séu skráð á markað, að því gefnu að þau uppfylli tvö af þremur eftirfarandi skilyrðum:

  • Tekjur yfir 40 milljónir evra á fjárhagsárinu
  • Eignir yfir 20 milljónir evra á fjárhagsárinu
  • Yfir 250 starfsmenn

Fyrirtæki utan Evrópu með umtalsverð umsvif, þ. e. veltu yfir 150 milljónir evra innan Evrópu munu einnig þurfa að lúta tilskipuninni, auk fjármálafyrirtækja, vátryggjenda og endurtryggjenda.

Þá eru ótalin hin ýmsu fyrirtæki í virðiskeðjum þeirra 49.000 fyrirtækja sem þurfa að skila sjálfbærniuppgjörum. Birgjar og þjónustuaðilar þeirra fyrirtækja sem verður skylt að skila sjálfbærniuppgjöri, geta búist við að verða fyrir óbeinum áhrifum CSRD og ESRS þar sem tilkynningarskyldu fyrirtækin munu óneitanlega krefjast samvinnu þeirra þegar kemur að gagnaöflun til þess að uppfylla nýjar kröfur að skýrslugerð fyrirtækis nái til virðiskeðju þess í heild sinni.

Hvað þarf að tilkynna?

Drögin að fyrsta ESRS-staðlasafninu samanstendur af tveimur þverlægum stöðlum sem tilgreina almennar kröfur og almennar upplýsingar, og tíu sértækari stöðlum sem tengjast umhverfismálum (5 drög að stöðlum), félagslegum þáttum (4 drög að stöðlum) og stjórnarháttum (1 drög að staðli) sem taka til margvíslegra viðfangsefna, allt frá loftslagsbreytingum til viðskiptamenningar. Í stuttu máli mun ESRS leiðbeina fyrirtækjum um hvaða upplýsingar þau þurfa að birta í skýrslum sínum samkvæmt CSRD og hvernig þeim ber að birta þær.

Sérsniðnir staðlar fyrir skráð lítil og meðalstór fyrirtæki (e. small and medium enterprises, “SMEs”), auk sértækra staðla fyrir atvinnugeira eru þegar teikniborði EFRAG og áætlað er að drög verði birt á árinu 2023.

Jafnvel fyrirtæki sem þegar eru metnaðarfull og vön að tilkynna samkvæmt gildandi reglum munu finna fyrir áhrifum CSRD og ESRS og þurfa að undirbúa sig. CSRD miðar ekki aðeins að því að margfalda fjölda tilkynningaskyldra fyrirtækja og innleiða skýrsluskyldu samkvæmt viðmiðinu um tvöfalt mikilvægi (e. double materiality standard), heldur einnig að útvíkka umfang þeirra UFS-upplýsinga sem þarf að standa skil á. Það er augljóst af fyrirliggjandi drögum að ESRS að þeim er ætlað að fjalla um fleiri UFS-tengd efni en fyrirtæki eru þegar vön tilkynna um. Ennfremur verður umfang þess sem fyrirtækjum er skylt að tilkynna um útvíkkað í virðiskeðjuna, bæði aðstreymis (e. upstream) og niðurstreymis (e. downstream), til varpa betra ljósi á raunveruleg UFS-áhrif fyrirtækja.

Hvenær munu reglurnar taka gildi?

CSRD mun fyrst gilda um stór skráð fyrirtæki sem þegar er skylt birta upplýsingar skv. NFRD frá 1. janúar 2024 (skýrslum verði skilað 2025 um gögn ársins 2024). Næst í röðinni munu stór fyrirtæki, sem ekki falla undir NFRD, falla undir tilskipunina frá og með 2025. Lítil og meðalstór fyrirtæki og fjármálafyrirtæki munu þá fylgja í kjölfarið og skilaskýrslum árið 2027 um gögn ársins 2026. Að lokum munu fyrirtæki utan Evrópu sem uppfylla skilyrði verða tilkynningarskyld frá 2029.

Ekki örvænta - við getum hjálpað þér!

Ljóst er að á næstu árum munu fleiri fyrirtæki þurfa að koma böndum á það mikla magn flókinna gagna sem þarf til þess að standa skil á sjálfbærniuppgjöri. Fyrsta skrefið sem þú getur tekið í rétta átt er að kynna þér drögin að ESRS-staðlasafninu og CSRD-tilskipuninni og meta áhrif þeirra á fyrirtækið þitt.

Klappir eru leiðandi í gerð hugbúnaðarlausna fyrir stafræna sjálfbærnistjórnun sem gerir fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að samræma sjálfbærnibókhald, skýrslugerð og uppgjör að ýmsum reglum, stöðlum og leiðbeiningum, þar á meðal ESRS og CSRD.

Sjálfbærnilausn Klappa gerir þér kleift að safna öllum viðeigandi gögnum frá aðilum sem tengjast rekstri fyrirtækis þíns og virðiskeðju þess, þar með talin losun í umfangi 1, 2 og 3 og önnur UFS gögn. Við getum hjálpað þér að skilja gögnin þín og birta þau með skilvirkni, nákvæmni og gagnsæi að leiðarljósi svo þú getur tekið réttu skrefin í átt að hlítingu við löggjöf og sjálfbærri framtíð.

Björn Atli Davíðsson14. desember 2022

Deila grein