Go to frontpage
Go to frontpage

Deila grein

2. júní 2021 Grein

Fimm mikilvægar sjálfbærniákvarðanir teknar af stjórnendum fyrirtækja

Á þeim rúmlega sjö árum sem ég hef starfað í sjálfbærni- og umhverfisiðnaði hef ég unnið með tugum fyrirtækja sem mislangt eru komin á sjálfbærnivegferð sinni. Ég hef tekið eftir að þau fyrirtæki sem ná árangri í innleiðingu sjálfbærni- og umhverfisverkferla, stefnu og hugsunarháttar eiga ýmislegt sameiginlegt. Ég tók saman fimm áhrifamestu ákvarðanir sem farsælir stjórnendur sjálfbærnimiðaðra fyrirtækja hafa tekið.

Sigrún Hildur Jónsdóttir

Fimm mikilvægar sjálfbærniákvarðanir teknar af stjórnendum fyrirtækja

Á þeim rúmlega sjö árum sem ég hef starfað í sjálfbærni- og umhverfisiðnaði hef ég unnið með tugum fyrirtækja sem mislangt eru komin á sjálfbærnivegferð sinni. Ég hef tekið eftir að þau fyrirtæki sem ná árangri í innleiðingu sjálfbærni- og umhverfisverkferla, stefnu og hugsunarháttar eiga ýmislegt sameiginlegt. Fimm áhrifamestu ákvarðanir sem farsælir stjórnendur sjálfbærnimiðaðra fyrirtækja hafa tekið eru að mínu mati eftirfarandi:

Eru með sérstakan verkefnastjóra

Þetta kemur kannski ekki á óvart. Það er mjög erfitt að innleiða breytingar, setja sér markmið og ná þeim án þess að einhver beri ábyrgð á verkefninu.

Fyrir nokkrum árum var venjan sú að bæta þessari ábyrgð við starfslýsingu starfsmanns sem hafði þá þegar öðrum skyldum að gegna, svo sem gæðastjórnun, starfsmannamálum, fjármálastjórn eða enn öðru. Þetta hefur ekki gefið góða raun, þar sem athygli viðkomandi varð skiljanlega of dreifð. Undanfarin ár hef ég tekið eftir að fyrirtæki ráða í auknum mæli sjálfbærni- og umhverfisstjóra sem einir bera ábyrgð á að fylgjast með og bregðast við umhverfismálum. Eins og búast má við er afleiðingin sú að aukin áhersla er lögð á umhverfismál í viðkomandi fyrirtækjum.

Stofna umhverfishóp

Það getur verið einmanalegt og erfitt að vera eina manneskjan í fyrirtækinu sem ætlað er að vinna að raunverulegum breytingum hvað varðar umhverfismálin. Því hafa sum fyrirtæki stofnað formlegan - eða óformlegan - umhverfis- og sjálfbærnihóp. Þessi hópur, sem oft samanstendur af 4-6 starfsmönnum og er leiddur af verkefnastjóra ber ábyrgð á markmiðasetningu, gerð og breytingum á stefnu, innleiðingu ferla og gerð sjálfbærniskýrslna. Góð ábending: Gott er að hafa liðsmenn frá ólíkum deildum í hópnum og gera þá ábyrga fyrir framkvæmd innan sinna deilda.

Hafa skýr og mælanleg markmið

Fyrirtæki sem hafa náð hvað mestum árangri við að minnka umhverfisfótspor sitt eru með skýr, skilgreind og mælanleg markmið. Best er að setja markmið sem eru auðskilin, forðast óljóst, óákveðið orðalag svo sem „Við stefnum að...“ sem gefur til kynna að ekki sé víst að markmiðið náist. Stilltu markmiðin af ef þurfa þykir, en reyndu að útskýra hvers vegna breytingar eru gerðar.

Fylgjast stöðugt með framförum og aðlaga

„Ef þú getur ekki mælt það, þá getur þú ekki stjórnað því“, (e. If you can’t measure it, you can’t manage it). Þessari setningu hefur verið haldið svo mikið á lofti að hún er löngu orðin að klisju. Hins vegar skipta tíðni og gæði mælinga máli. Segjum sem svo að farið sé í aðgerðir til að ná framförum og árangur þeirra svo mældur að ári liðnu. Ef í ljós kemur að aðgerðirnar hafa engu skilað hefur heilu ári verið sóað til einskis. Ganga þarf úr skugga um að verkefnastjórinn og umhverfishópurinn hafi stöðugt augu með verkefninu og gera þarf óhikað breytingar á stefnu og aðgerðum ef þær skila ekki tilætluðum árangri.

Líta á sjálfbærni sem hluta af viðskiptamódelinu

„Don't dream it, be it“ söng hið vitra ólíkindatól í frábærri kvikmynd. Mitt ráð: Sjálfbærni ætti að vera hluti af sjálfu viðskiptamódelinu. Vinna þarf að sjálfbærnimálum af heilum hug á öllum stigum ef sjálfbærnivegferðin á að leiða til raunverulegs árangurs.

Sigrún Hildur Jónsdóttir2. júní 2021

Deila grein