Go to frontpage
Go to frontpage

Deila grein

15. janúar 2022 Frétt

Klappir styðja fyrirtæki í átt að sjálfbærni

Klappir var stofnað til þess að hanna stafrænar lausnir á sviði umhverfismála fyrir haftengdan iðnað. Sýn fyrirtækisins var að nýta gríðarlegt magn gagna sem til var á pappírsformi til að rafvæða lögbundna skráningarferla. Gagnasöfnunin vatt fljótlega upp á sig og nær nú utan um nánast allt sem snertir umhverfismælingar í rekstri fyrirtækja og stofnana.

Klappir

Stafrænt vistkerfi

Klappir er hugbúnaðarfyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til ársins 2013. Fyrirtækið hefur þróað og selt hugbúnað sem styður vegferð samfélagsins í átt að sjálfbærni.

„Klappir hafa því markvisst unnið að því að byggja upp öfluga stafræna innviði til þess að mynda sjálfbært vistkerfi,“ segir Þorsteinn Svanur Jónsson, einn stofnenda Klappa og framkvæmdastjóri vöruþróunar.

„Stafrænt vistkerfi Klappa auðveldar samvinnu fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana, með því að gera þeim kleift að deila á milli sín sjálfbærniupplýsingum með skilvirkum hætti. Viðskiptavinum er því mögulegt að sækja rauntímaupplýsingar um notkun þeirra á til dæmis rafmagni og eldsneyti ásamt losun á úrgangi beint frá sínum birgjum. Sjálfbærnilausn Klappa vinnur í kjölfarið úr upplýsingunum og gerir fyrirtækinu kleift að reikna út kolefnisspor, koma auga á tækifæri til þess að draga úr sóun, útbúa sjálfbærniuppgjör og deila upplýsingum með fjárfestum eða öðrum hagaðilum,“ útskýrir Þorsteinn.

Mikil og góð samvinna

Frá því að Klappir hófu vegferð sína hefur fyrirtækið vaxið gríðarlega og sjálfbæra vistkerfið orðið umfangsmeira. Það aðstoðar nú yfir 400 fyrirtæki og stofnanir við að fá yfirsýn yfir umhverfismálin. Þau fyrirtæki sem hafa komið í viðskipti og tekið sjálfbæra vistkerfið í notkun hafa náð miklum árangri í losun gróðurhúsalofttegunda, en þau hafa að meðaltali náð 21% samdrætti í losun.

„Góður árangur Klappa á Íslandi hefur meðal annars byggst á farsælu samstarfi fjölmargra aðila sem hafa unnið með fyrirtækinu síðastliðin ár. Klappir leggja mikla áherslu á samvinnu í sinni starfsemi á grundvelli sautjánda heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna, samstarf hagaðila (opinbera geirans, einkaaðila og borgaranna) og þátttöku þeirra í verkefnum sem stuðla að sjálfbærri þróun Íslands. Lausn Klappa hefur hjálpað við að leggja grunninn að sameiginlegum skilningi á sjálfbærni ásamt því að skapa grunn að mikilvægum verkefnum sem hjálpa samfélaginu öllu í þeirri umbreytingu sem er að eiga sér stað,“ segir Þorsteinn.

Breytingar á regluverki

Á komandi mánuðum og árum verður allt lagaumhverfi í kringum sjálfbærnimál styrkt, aukið eftirlit og kröfur til áreiðanleika, rekjanleika og gagnsæis uppgjöra verða hertar verulega. Auknar kröfur og skýr lagaumgjörð í kringum sjálfbærni hvetja fyrirtæki og sveitarfélög til að staðla gagnasöfnun, úrvinnslu á gögnum, greiningar og skýrslugjafar til hagaðila.

„Ísland hefur einstakt tækifæri til að vera leiðandi í sjálfbærni og umhverfismálum, sérstaklega þegar kemur að endurnýtanlegri orku og nýtingu auðlinda á sjálfbæran máta. Við höfum nú þegar komið á stöðluðu kerfi í kringum gerð sjálfbærniuppgjöra sem tryggja rekjanleika og gagnsæi. Þetta kerfi byggir á hugbúnaðarlausn Klappa og þeim innviðum sem Klappir og viðskiptavinir hafa byggt í sameiningu,“ greinir Þorsteinn frá og segir að margt spennandi sé á döfinni hjá fyrirtækinu.

Miklu fleiri gögn á ábyrgan hátt

Segja má að Klappir séu fyrirtæki sem er nokkuð á undan sinni samtíð. Þorsteinn tekur undir það og segir að fyrirtækið hafi verið byrjað í sjálfbærniferðalagi áður en hin mikla umhverfisverndarbylgja reið yfir heiminn. Það voru fá fyrirtæki að halda utan um kolefnisspor.

Þetta voru fyrst og fremst stórfyrirtæki sem voru með eigin deildir þar sem starfsmenn söfnuðu gögnum handvirkt, eða ráðnir voru sérfræðingar til að gera það. Með tilkomu Klappa tengjast fyrirtæki við hugbúnað okkar. Hann gerir fyrirtækjum kleift að safna miklu fleiri gögnum á mun meiri hraða og alveg sjálfvirkt, byggja upp sjálfbærniskýrslur auk þess sem rekjanleikinn verður öruggari. Til dæmis eru endurskoðendur fyrirtækja farnir að taka sjálfbærniskýrslur til skoðunar með ársreikningi. Það er lagaskylda hjá ákveðnum tegundum fyrirtækja að skila inn ESG-skýrslu um samfélagslega ábyrgð (umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti) með ársreikningi. Nauðsynlegur hluti af þessu er að upplýsingarnar séu rekjanlegar, aðgengilegar og skiljanlegar. Okkur hefur tekist að safna þessum upplýsingum saman á rafrænan hátt.

„Með því að hafa þessar upplýsingar geta fyrirtæki síðan deilt þeim með öðrum, gert þær sýnilegar og gegnsæjar í gegnum gagnagrunninn okkar. Okkar vinna er því á grundvelli samstarfs,“ útskýrir Þorsteinn.

Samfélagsleg ábyrgð í fyrirrúmi

„Ég segi stundum að við séum í sögulegu samhengi eins og Gutenberg prentsmiðjan. Allt í einu tókst okkur að dæla út ótrúlegu magni af upplýsingum og koma þeim til þeirra sem á þurfa að halda í stafrænu formi. Við höfum líka staðlað skýrslurnar og gert þær að einföldum bókhaldslyklum.Sjálfbærni og umhverfisvernd skipta allt samfélagið máli, ekki bara einstaka hluthafa í fyrirtækjum. Ef fyrirtæki eru að leita sér að einhvers konar þjónustu eins og þrifum, tryggingum eða öðru slíku geta þau séð hvort þau séu umhverfisvæn eða láti til sín taka í slíkum málum,“ segir Þorsteinn.

Klappir búa að því að vera fjölskyldufyrirtæki og byggja starfsemi sína á norrænum gildum þar sem samfélagsleg ábyrgð er í fyrirrúmi. Markmið og framtíðarsýn Klappa snýr að þeim gildum, ásamt því að vilja auka skýrleika á sjálfbærniupplýsingum á alþjóðavísu og auðvelda alla upplýsingamiðlun um þá þætti sem snúa að sjálfbærni fyrirtækja.

Þar af leiðandi eru verkefni sem skapa ávinning fyrir samfélagið í heild sinni mikilvæg fyrir Klappir.

Margt áhugavert er að gerast hjá Klöppum og bendir Þorsteinn á skógræktarmál og mótvægisaðgerðir. „Við ætlum að láta til okkar taka þar og nýta okkar tækni í stafrænni nálgun. Með þessu viljum við aðstoða bændur og landeigendur að ná betur yfir löndin sín, til dæmis rækta skóga eða endurheimta vistkerfi og búa til kolefniseiningar sem hægt er að selja. Við ætlum að styðja við landbúnaðinn í heild sinni. Einnig erum við að stíga það skref að ná betur utan um umhverfisfótspor við framleiðsluvarning, en hingað til höfum við einblínt á rekstur fyrirtækja,“ útskýrir hann.

Alþjóðlegt skólaverkefni

Þetta er ekki það eina því Klappir eru að hefja samstarf við grunnskóla landsins í gegnum verkefnið Grænskjáir.

„Við höfum safnað gögnum frá skólunum og ætlum að gera glæsilegt viðmót sem krakkar geta lesið. Þannig ættu þau að geta skoðað orku- og vatnsnotkun sína, úrgangsmyndun og fleira í rauntíma. Landvernd er að vinna með okkur í þessu verkefni og ætlar að vera með umhverfisfræðslu og sjálfbærnimenntunarprógrömm innan grunnskólans. Þannig er hægt að nýta stafræna tækni til að fræða krakkana um umhverfisáhrif.

Reykjavíkurborg, Sorpa, Faxaflóahafnir og Origo eru einnig með okkur í þessu verkefni. Við erum með sams konar verkefni í Noregi og Slóveníu á sama tíma. Þetta er því upphafið á alþjóðlegu skólaverkefni. Með þessu er hægt að gefa krökkunum miklu fyrr grunnþekkingu um sjálfbærni og þekkingu í umhverfis- og auðlindamálum. Þeir lenda þá ekki í því sama og við hin eldri að vera á byrjunarreit þegar kemur að umhverfismálum.

Við höfum safnað gögnum frá 2015 og nú tökum við skrefið að færa þau nær nemendum í grunnskólum. Gagarín hannar viðmótið og við stefnum á að þetta verði komið í alla skóla næsta haust. Í grunninn er hugmyndin unnin út frá því að nýta sjálfbær vistkerfi Klappa til að mæla kolefnisspor grunnskóla Reykjavíkur. Ávinningurinn er að efla gagnadrifið umhverfislæsi grunnskólanema og efla getu þeirra til þess að hugsa um loftslags- og umhverfismál á gagnrýninn hátt,“ segir Þorsteinn, sem segir skipta miklu máli hinn mikla meðbyr sem Klappir hafa fengið.

„Við erum skráð félag í Kauphöll Íslands og við horfum til alls heimsins í starfi okkar. Við erum búin að skipa okkur sess í Danmörku og þegar farin að vinna með nokkrum stórum fyrirtækjum þar í landi. Sömuleiðis erum við með fyrirtæki í Lettlandi og Litáen. Útrásin er því hafin og gengur mjög vel. Með því að vera á markaði gefum við fólki kost á að vera þátttakendur með okkur í þessu ferli. Við erum núna með um 350 hluthafa, bæði einstaklinga og stóra fjárfesta,“ segir Þorsteinn og bendir á að Klappir séu mjög umhverfisvænt fyrirtæki.

Aðgengi að grænu fjármagni

„Klappir fengu á dögunum staðfestingu á grænni starfsemi og grænum fjármálaramma frá alþjóðlegum úttektaraðila, sem er mikil viðurkenning og stórt skref í sögu félagsins. Slíkur rammi mun gagnast Klöppum við fjármögnun frá lykilaðilum á fjármagnsmarkaði líkt og bönkum, lífeyrissjóðum og almennum fjárfestum, sem eru með grænar áherslur.

Klappir er fyrsta fyrirtækið á Íslandi og líklega á Norðurlöndunum sem hefur grænan fjármálaramma um alla starfsemi félagsins. Þar sem meira en 90% af tekjum Klappa kemur frá gjaldgengri „grænni þjónustu“ beita Klappir „hreinni leikaðferð“ (pure play) sem auðveldar allt utanumhald og skýrslugjöf til hagaðila.

Klappir Nordic

Byggt á góðri reynslu Klappa á Íslandi og góðum viðtökum við lausn Klappa í Danmörku, er unnið að því að opna skrifstofu í Danmörku, Klappir Nordic, sem mun sjá um sölu og markaðsstarf á Norðurlöndunum.

Klappir einbeita sér fyrst að því að fjölga notendum og gagnalindum í Danmörku, því þar er fyrir hendi góður grunnur til vaxtar. Frá Danmörku fara Klappir til hinna Norðurlandanna í áföngum eftir því sem þeir markaðir opnast fyrir samvinnu við Klappir.Tengdar greinar:
Klappir 2021 Árs- og sjálfbærniskýrsla 2021
Grænn fjármögnunarrammi
Klappir Nordic stofnað og opnar skrifstofu í Kaupmannahöfn

Klappir15. janúar 2022

Deila grein