Go to frontpage
Go to frontpage

Deila grein

9. ágúst 2019 Grein

Á spjalli við Klappir: Jökull Sólberg

Jökull Sólberg hefur látið að sér kveða í umræðunni um samgöngu- og umhverfismál að undanförnu. Hann hefur birt greinar, meðal annars á Stundinni, og heldur einnig úti kraftmiklu, vikulegu fréttabréfi, Reykjavík Mobility, um örflæði (e. micromobility).

Klappir

Sæll og blessaður Jökull og takk fyrir að koma í spjall við Klappir.

Gætirðu sagt okkur aðeins frá því til hvers hugtakið „örflæði“ vísar?

Jökull Sólberg (JS): Nafnið á fréttabréfinu er vísvitandi með alþjóðlegri skírskotun. Þetta er vísbending um að efnistök séu ekki bara heimabökuð heldur sótt frá erlendum borgum sem hafa verið að gera mannúðlegra skipulagi hærra undir höfði. Örflæði er þýðing á orðinu micromobility og vísar til þeirrar hugmyndar að stuttum ferðum sé hægt að sinna á litlum tækjum. Í dag á eitt tæki í einkaeigu að uppfylla allar ferðaþarfir heimilisins hvort sem við skreppum út í búð að kaupa smjör eða keyrum hringinn í kringum landið með alla fjölskylduna. Bílaauglýsingar ganga jafnvel enn lengra. Þar er bílnum falið enn fleiri hlutverk; tenging við óbyggðir og stöðutákn. Örflæði gengur út á að auka fjölbreytni tækja og leyfa þeim að uppfylla afmarkaðri hlutverk. Lítil tæki fyrir stuttar ferðir, t.d. rafhjól, og stærri tæki fyrir lengri ferðir, t.d. rúta eða lest. Þetta er hugmyndafræði sem passar vel inn í tíðarandann. Það þarf samt ekki einu sinni grænan vinkil til að örflæði gangi upp. Rafhjól ferðast hraðar en bíll í þéttustu hlutum Reykjavíkur og er mun hagstæðari ferðamáti.

Hvaðan sprettur orka þín og ástríða fyrir þessu málefni?

JS: Það er stundum sagt að hagfræði sé of mikilvæg til að leyfa hagfræðingum einum að eiga þá fræðigrein. Það sama á við um skipulag og samgöngur. Viðfangsefnið er svo nálægt okkur í öllum skilningi og hefur áhrif á daglegt líf okkar. Það má skipta sér af þessu. Skipulags- og samgöngumál tengjast og teygjast út um allt. Í Kongó eru börn að vinna í námum að grafa eftir kóbalti í fáránlegum og lífshættulegum aðstæðum. Volkswagen hefur veðjað á lithium-ion rafhlöður sem nota kóbalt sem flæðir inn í virðiskeðjuna frá Afríku í gegnum Kína. Ríkisstjórnin á Íslandi niðurgreiðir þessa bíla. Flækjustigið er óendanlegt og í því felst einhver fegurð.

Hvað er lofsvert í Reykjavík hvað varðar þessi mál? Hvað er gagnrýnivert og mætti laga?

JS: Hjá Reykjavíkurborg er fullt af fagfólki. Öll mín kynni af starfsfólkinu þar einkennast af framsýnni hugsun og næmni fyrir nútímalegum kröfum. Vandamálið er tekjuöflun sem lendir á rekstraraðilum eða byggingarverktökum og samstarf við ríkið. Ef ríkið ætlar ekki að ganga í takt þarf einfaldlega að færa meiri ábyrgð til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og efla svo samstarfið á milli þeirra. En stefnan er hárrétt þar sem borgin fær henni ráðið. Ef ég væri í Sim City myndi ég bara hraðspóla og gefa þessu 10 ár með sömu borgarstjórn. Ég hef mestar áhyggjur af þjóðvegunum sem ríkið ber mesta ábyrgð á.

Hvaða aðrar borgir eru að þínu viti til fyrirmyndar í örflæði (eða almenningssamgöngum) og til þess fallnar að aðrir megi læra af þeim?

JS: Borgir sem eru þekktar fyrir hjól eru í góðum málum. Þar er rafvæðing yfirleitt mjög hröð og innviðir til fyrirmyndar. Rafvæðing bætist bara við og fjölbreytni í tækjum eykst með tilkomu mótorsins þar sem slík tæki eiga auðveldara með auka farþega- eða vöruflutninga. Margar borgir í Suð-austur Asíu og Indlandi t.d. Hanoi ganga bara upp af því fólk notar tveggja hjóla farartæki en ekki fjórhjóla bifreiðar. Zurich og Helsinki hafa haldið vel utan um stöðvalausu leigurnar á meðan aðrar borgir t.d. París hafa lent í vandræðum með þær. Margir hafa áhyggjur, skiljanlega af loftslaginu, umhverfinu, lífríkinu á jörðinni og þær áhyggjur eru samofnar samgöngukerfinu. Mikið er rætt um hvað við getum gert til að bæta ástandið. Sem sagt: það er kallað eftir aðgerðum. Ég held hins vegar að vandamálið felist ekki síst í því hvernig við erum, hvernig við hugsum. Ég held að við þurfum að breyta einhverju djúpt innra með okkur, hætta til dæmis að aðgreina okkur til að mynda frá öðru lífríki ef við viljum laga ástandið til frambúðar. Og þá koma aðgerðirnar af sjálfu sér.

Hvaða augum lítur þú þetta? Heldurðu að það sé að verða vitundarvakning í þessu samhengi og jafnvel yfir vítt aldursbil?

JS: Umræðan er orðin miklu pólitískari, sem er gott. Hingað til hefur umræðan snúist um að véfengja eða mistúlka vísindamenn og vinda svo ofan af því. Nú virðist flest hugsandi fólk viðurkenna að þetta alþjóðlega félagshagfræðilega kerfi þurfi að taka miklum breytingum til að verja vistkerfið fyrir varanlegum skaða. Það er hægt að horfa á þetta á tvo vegu; annars vegar erum við að berjast fyrir umbreytingu á neyslu þannig að henni sé dreift jafnt og takmarkist við þolmörk vistkerfisins. Þá verðum við að treysta á pólitík og miðstýringu. Ég held að mörgum fallist hendur við þá tilhugsun af gefinni reynslu í því félagshagfræðilega kerfi sem er til staðar. Hin nálgunin er að umbreyta menningunni og það er það sem ég held að þú sért að vísa til.

Getur verið að framkoma sem fyrir ekki svo ýkja löngu þótti töff og til marks um velgengni og gæfu, svo sem mikil neysla, stór og hávær bíll, stöðugt ný föt og endalaus græjukaup, verði brátt litin hornauga af vel upplýstu fólki?

JS: Í gamla menntaskólanum okkar er kjötát litið hornauga í auknum mæli. Það er til marks um fáfræði og skilningsleysi í augum ungs fólks. Ég sé þetta líka í tískuheiminum. Yeezy línan frá Kanye West er tætt og litirnir eru daufir. Fáir skilja eins vel tíðarandann og hann en hann er að sama skapi ekki yfirlýstur umhverfissinni. Upplýsta stéttin vill innleiða einhver skilaboð í klæðin sín. Á sama tíma hefur 80% heimsbyggðarinnar aldrei flogið.

Hvað gerirðu sjálfur sem manneskja, í daglegu lífi, til að reyna að breiða út vitund um umhverfismál og reyna að bæta lifnaðarhætti okkar (ef nokkuð)? (Auk þess að senda út fréttabréfið þitt.)

JS: Mikið af mínu kolefnisspori var útaf rekstri sem ég kom á fót í Bretlandi. Stjórnarfundir, ráðstefnur og fleira varð til þess að ég var með mjög ýkt kolefnisspor. Ég ákvað að stíga til hliðar og ráða forstjóra sem var nær okkar viðskiptavinum og sagði mig úr stjórn. Í dag er ég bara hluthafi, þó að fleiri ástæður hafi verið þar að baki. Hins vegar var ég nú nýlega í fríi í Frakklandi. Er það hræsni eða réttlætanleg ákvörðun? Þetta eru í það minnsta forréttindi. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem gengur lengra og hefur gert í lengri tíma á fleiri sviðum í sinni neyslu. Þetta eru frekar nýjar pælingar fyrir mér.

Hvert sækirðu þér helst upplýsingar um umhverfismál?

JS: Twitter. Ég er forfallinn Twitter fíkill. Ég er sjálfur undir @jokull og tísti á ensku.

Finnst þér fræðsla og efni um loftslags- og umhverfismál vera nægilega aðgengileg?

JS: Ég las bókina The Uninhabitable Earth eða Hin ólífvænlega jörð. Það mætti þýða hana. Hún er mögnuð og talaði til mín. Höfundurinn var ekki tree hugger heldur borgarbarn sem gerðist blaðamaður og fékk sjokk þegar hann áttaði sig á því hversu bjagaða mynd var að finna í fjölmiðlum um loftslagsvandann.

Hvernig sérðu Ísland fyrir þér árið 2050? Stefnum við í rétta eða ranga átt?

JS: Kolefnishlutleysi í neyslu sem og framleiðslu hlýtur að vera lágmarkið. Ég sé fram á flóttamannavanda tengdan röskun lífríkis og þá mun koma í ljós hversu miklir kynþáttafordómar grassera á Íslandi undir niðri. Það eru ýmis mál sem við höfum ekki ennþá þurft að eiga við. Kannski eiga umhverfissinnar fleiri stuðningsmenn en þeir átta sig á.

Klappir9. ágúst 2019

Deila grein