Go to frontpage
Go to frontpage

Deila grein

4. september 2019 Grein

Hvað er The Greenhouse Gas Protocol?

Aðferðafræði Klappa í snjallri umhverfisstjórnun tekur mið af The Greenhouse Gas Protocol. Enda er ekki ósjaldan spurt: En hvað er The Greenhouse Gas Protocol eiginlega? Það er ágætis spurning. Við ákváðum að svara því í eitt skipti fyrir öll í sérstakri greinaröð um efnið. Sú grein, sem hér fer á eftir, er sú fyrsta í röðinni. Við vonum að hún reynist þér bæði fræðandi og gagnleg.

Anton Birkir Sigfússon

Greenhouse Gas Protocol 101

Í stuttu máli þá felur The Greenhouse Gas Protocol (GHGP) í sér þá staðla, leiðbeiningar og tól sem gagnast við að gera grein fyrir og halda utan um losun gróðurhúsalofttegunda. Markmiðið með The Greenhouse Gas Protocol er að hjálpa fyrirtækjum, stjórnvöldum og stofnunum að auka skilvirkni og aðlögunarhæfni og styrkja rekstur almennt með því að koma á fót heildrænni umgjörð um mælingar og eftirlit með losun á gróðurhúsalofttegundum samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Aðaltilgangur GHGP er að draga úr og fá betri yfirsýn um losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sem fjallað er um í Kýótóbókuninni (Japan, des. 1997).

Annað hvort drögum við stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda ellegar við horfumst í augu við afleiðingar þess að eitra gufuhvolf jarðar og hafið.

Þannig hljómar afar einfölduð útgáfa af margslungnu og eldfimu vandamáli. Greinin, sem hér fer á eftir, fjallar ekki um loftslagsbreytingarnar sem slíkar og hinar mörgu og ólíku skoðanir okkar á þeim. Ætlunin er miklu heldur að fara í saumana á The Greenhouse Gas Protocol og bregða ljósi á hvernig losunarbókhaldið og skýrslugjöfin virkar í raun og veru.

Sagan á bak við tilurð The Greenhouse Gas Protocol

Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að setja málið í sagnfræðilegt samhengi. Árið 1998 komu saman fulltrúar The World Resource Institute (WRI), frjálsra félagasamtaka í Bandaríkjunum, og The World Business Council for Sustainable Development (WBCSD), samsteypa 170 alþjóðlegra fyrirtækja með aðsetur í Genf. Fundurinn fór fram undir yfirheitinu The Greenhouse Gas Protocol Initiative; markmiðið var að setja saman alþjóðlega staðla fyrir bókhald og skýrslugjöf fyrirtækja samkvæmt Kýótóbókuninni áðurnefndu. Hér heyrði til tíðinda – en rannsóknir á gróðurhúsalofttegundum höfðu reyndar tíðkast allt frá upphafi iðnbyltingarinnar. Árið 1852 svipti skoskur efnafræðingur, Robert Angus Smith, sem starfaði í Manchester á Englandi, hulunni af orsakatengslunum á milli súrs regns (e. acid rain) og loftmengunar. Smith gaf út bók með niðurstöðum sínum, Air and Rain, the Beginnings of Chemical Climatology (1872), þar sem hann setti fyrstur manna fram hugtakið „súrt regn“.

Hartnær hundrað árum síðar gaf breska þingið út The Clean Air Act 1956 í þeirri von að sporna mætti gegn mengunarskýinu ógnarlega sem lagst hafði yfir Lundúnaborg, drepið um 12.000 manns og sent um 150.000 á sjúkrahús með sýkingar í öndunarfærum. Mengunin stigmagnaðist ár frá ári og var orðin að mikilli samfélagsplágu. Hinum megin við Atlantshafið kynntu bandarísk stjórnvöld The Air Pollution Control Act til leiks árið 1955, fyrstu bandarísku löggjöfina sem greindi loftmengun sem landlægt vandamál. Fleiri lagabálkar komu í kjölfarið, árin 1963, 1970 og 1990, og smátt og smátt urðu til fastir losunarstaðlar í Bandaríkjunum meðfram því sem frekari rannsóknir voru fjármagnaðar.

Fyrirtækjastaðlar í Greenhouse Gas Protocol

Kjölfestan í GHG Protocol Initiative eru tveir ólíkir en nátengdir staðlar: GHG Protocol Corporate Accounting and Reporting Standard (sem veitir fyrirtækjum leiðsögn, skref fyrir skref, um hvernig mæla skuli losun gróðurhúsalofttegunda og standa að skýrslugjöf) og GHG Protocol for Project Accounting (sem er leiðarvísir um hvernig mæla megi árangur af sérmiðuðum verkefnum um losunarsamdrátt).

Að þessu sinni einskorðum við okkur við þann fyrri: fyrirtækjastaðalinn svokallaða (Corporate Accounting and Reporting Standard eða GHG Protocol Corporate Standard). Sá leit dagsins ljós árið 2001 og var strax tekinn í notkun af fyrirtækjum, félagasamtökum og stjórnvöldum um víða veröld. Fyrirtækjastaðallinn hjálpar margs konar stofnunum að sinna skýrslugjöf samkvæmt reglum og viðmiðum viðhlítandi iðngreinar og byggja upp skýrslugerðarkerfi jafnt sem reiknitól fyrir losun á gróðurhúsalofttegundum.

Fyrirtækjastaðallinn felur í sér leiðsögn fyrir fyrirtæki, stjórnvöld og stofnanir sem vilja halda bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrirtækjastaðallinn einblínir á losunarbókhald og skýrslugerð um losun og leggur notendum til sérstaka umgjörð sem tryggir að allar upplýsingar séu réttar og samrýmanlegar á milli ára. Ekki er veittur sérstakur staðall um samræmingarferlið.

Fyrirtækjastaðallinn byggist á fimm stöðlum ásamt leiðsögn um hvernig uppfylla megi staðlana. Þessi grein tekur einungis fyrir fyrirtækjastaðalinn; á næstu mánuðum munum við hins vegar kafa dýpra í hvern og einn hinna staðlanna í sérstakri greinasyrpu.

Losunarbókhald samkvæmt Greenhouse Gas Protocol

Frá sjónarhóli þeirra sem reka fyrirtæki myndar losunarbókhaldið kjarnann í fyrirtækjastaðlinum. Verkferlar greina uppruna losunar og finna leiðir til að draga úr henni. Fyrirtækjastaðalinn ætti ekki að nota til að mæla samdrátt vegna mótvægisaðgerða. Væntanlegur er nýr staðall, GHG Protocol Project Quantification Standard, sem veita mun staðla og leiðsögn hvað það varðar.

Sjálfbærnilausn Klappa heldur utan um losunarbókhaldið. Um er að ræða snjallt hugbúnaðarkerfi sem streymir gögnum um losun beint frá þjónustuveitum allt að því í rauntíma, auk þess sem kerfið veitir notendum einföld tól til að gera áreiðanlegt og gagnsætt loftslagsbókhald og setja saman umhverfisskýrslur. Annar þarfur eiginleiki eru djúp greiningartól (e. deep diving analytics) sem draga fram margvísleg gögn á skýru formi og hjálpa fyrirtækjum þannig að taka upplýstar viðskiptaákvarðanir.

Losunarbókhaldið er notað til að halda utan um og gera grein fyrir losun á gróðurhúsalofttegundunum sex sem fjallað er um í Kýótóbókuninni, viðauka A. Koltvísýringur er þar í aðalhlutverki, um 80% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda; metan og nituroxíð nema um 15-17% eftir því um hvaða atvinnuveg er að ræða. Flúoraðar lofttegundir reka svo lestina og spanna um 3%; vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF6). Síðasttöldu lofttegundirnar eru taldar hafa sérstaklega slæm áhrif á loftslagið (á ensku heyra þær undir skilgreininguna High Global Warming Potential Gases) og eru allt að 23.000 sinnum skaðlegri en koltvísýringur.

Samantekt

Fyrirtæki, stjórnvöld, stofnanir, menntastofnanir og aðrir þeir sem vilja auka vitund um losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr kolefnisspori sínu hafa augljóslega mikinn hag af því að nota fyrirtækjastaðalinn (The GHG Protocol Corporate Standard). Í maí síðastliðnum sendi Nasdaq frá sér nýjan alþjóðlegan leiðarvísi um ESG-skýrslugerð handa bæði einka- og ríkisreknum fyrirtækjum. ESG-skýrslugerðin er að jafnaði ekki felld undir fjárhagshliðina í rekstri en þó hefur margsýnt sig að mikill sparnaður getur hlotist af því að taka hana föstum tökum. Við bætist svo að fjárfestar um allan heim líta nú til fleiri þátta en einungis hagnaðar og rekstrarframmistöðu. The Greenhouse Gas Protocol er öflugt tól sem styrkir áreiðanleika og gagnsæi í umhverfisbókhaldi og skýrslugerð.

Klappir grænar lausnir

Sjálfbærnilausnin okkar er kjölfestan í hugbúnaðarkerfi Klappa grænna lausna og sérstaklega hönnuð með fyrirtækjastaðal The Greenhouse Gas Protocol í huga. ESG-skýrslurnar sem unnar eru út frá gögnunum sem Sjálfbærnilausnin tekur saman sýna losunarupplýsingar út frá Umfangi 1,2 og 3 í auðskiljanlegum línuritum og töflum svo að auðvelt er að deila þeim með hagsmunaaðilum og tilvonandi fjárfestum.

Anton Birkir Sigfússon4. september 2019

Deila grein