Go to frontpage
Go to frontpage

Kolefnisjöfnun

Kolefnisjöfnun reksturs er stórt og um leið mikilvægt skref fyrir fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið til að lágmarka framtíðarkostnað vegna loftslagsmála.

Vottaðar kolefniseiningar úr íslenskri skógrækt

Framleiðsla vottaðra kolefniseininga í bið hjá Klöppum fer í gegnum sérstakt ferli sem er gert til að tryggja verðmæti þeirra og rekjanleika. Ferlið byggir á alþjóðlegum viðmiðum og aðferðafræði sem er lykilatriði til að byggja upp ábyrgan kolefnismarkað á Íslandi. Það að bjóða vottaðar kolefniseiningar í bið er stórt og mikilvægt verkefni til að við getum mætt loftslagsáskoruninni og endurheimt landgæði.

Ferli við framleiðslu kolefniseininga (PDF)

Losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum

Ísland stendur á krossgötum í loftslagsmálum um þessar mundir en með alþjóðaflugi og siglingum var heildarlosun Íslands samtals um 15,8 mtCO2-íg. Þar af er losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og skógrækt 9,1 mtCO2-íg (LULUCF).

Ísland stendur nú andspænis tveimur skuldbindandi áskorunum:

  • Að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verði um 55% fyrir 2030 miðað við 1990 í samvinnu við Evrópusambandið.
  • Kolefnishlutleysi 2040 sem þýðir að losun gróðurhúsalofttegunda sé ekki meiri en sem nemur bindingu gróðurhúsalofttegunda í landi.

Lög um Loftslagsmál
Staða Íslands í loftslagsmálum (PDF)

Endurheimt landgæða

Ef stöðva á losun frá landi þarf að koma af stað þjóðarátaki í endurheimt landgæða. Ef vel er að slíku átaki staðið er hægt að gera það arðsamt fyrir alla þá sem að átakinu koma auk þess að skapa grundvöll fyrir nýsköpun t.d. í landbúnaði, iðnaði og fjármálum. Einnig er þarft að hafa í huga að ef Ísland nær ekki skuldbindingum sínum undir Parísarsamningnum (líkt og gerðist undir Kyoto tímabilinu) er ljóst að landið þarf að greiða umtalsverðar upphæðir strax árið 2030 vegna sekta og kaupa á kolefniseiningum.

Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa (PDF)
Kvika og Klappir skrifa undir viljayfirlýsingu um loftslagssjóð

Samvinna um vottað ferli

Ein af frumforsendum þess að hægt sé að ráðast í slíkt átak á Íslandi er að við komum okkur upp einu sameiginlegu kerfi þannig að hægt sé að framleiða verðmætar kolefniseiningar sem fást viðurkenndar af aðilum á Íslandi, á alþjóðlegum kolefnismörkuðum, hjá Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum.

Við höfum sett upp aðferðafræði, verklag og kerfi í kringum hugbúnaðinn okkar sem heldur utan um framleiðslu á kolefniseiningum í gegnum vottað ferli. Kerfið heldur utan um ferlið frá gróðursetningu skógar til afhendingar vottaðra kolefniseininga‚ í takt við alþjóðlegar venjur sem eru viðurkenndar af íslenskum og alþjóðlegum aðilum. Þó svo að við byrjum á að horfa til skógræktar er ætlun okkar að bæta við endurheimt votlendis og landgræðslu ásamt öðrum viðurkenndum kolefnisverkefnum.

Markaðstorg Klappa

Allir sem kaupa kolefniseiningar í gegnum markaðstorg Klappa (Klappir MarketPlace) geta keypt eins margar einingar og þeir vilja, óháð umhverfisuppgjörinu. Allar einingarnar sem við setjum í framleiðslu verða skráðar á nafn viðkomandi aðila í Loftslagsskrá. Þær einingar verða í Loftslagsskrá sem eign kaupanda sem hægt verður að nota þegar binding verður raunveruleg og einingarnar hafa verið virkjaðar. Kröfur og aðferðafræði sem unnið verður eftir í skógarræktarverkefnum byggir á Skógarkolefni sem Skógrækt Íslands hefur mótað eftir alþjóðlegri fyrirmynd.

Verðlisti kolefniseininga 2022 (PDF)

group chat

Áreiðanlegur kolefnismarkaður

Klappir hafa ásamt fjölmörgum hagaðilum einsett sér að vinna saman að því að þróa gagnsæjan, áreiðanlegan kolefnismarkað á Íslandi sem styðst við alþjóðlega viðurkennda aðferðafræði og viðmið.

Helstu hagaðilar eru meðal annars: Íslenska ríkið, Kolviður, Skógræktarfélag Íslands, Skógræktin, Landgræðslan, Bændasamtökin, Skógarbændur, YGG, Votlendissjóður, Loftslagsskrá, iCert o.fl.

Stafræn tækni í umhverfis- og loftslagsmálum

Klappir líta á uppbyggingu á stafrænni tækni sem eina af mikilvægustu forsendum þess að árangur náist í umhverfis- og loftslagsmálum. Á undanförnum árum hafa Klappir byggt upp stafrænt vistkerfi fyrir sjálfbærni á Íslandi og erlendis. Í dag eru um 600 aðilar, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sem nota það með einum eða öðrum hætti. Þetta hefur skapað einstök verðmæti fyrir íslenskt samfélag.

Kynning á Klöppum (PDF)

Endurheimt vistkerfa er auðlind framtíðarkynslóða. Ef við stöndum saman um þetta, þá mun íslensk náttúra njóta góðs af og við munum byggja upp skógarauðlind og endurheimta vistkerfi fyrir komandi kynslóðir.

Gera má ráð fyrir að verð á vottuðum kolefniseiningum muni hækka mikið á komandi árum og mögulega vera komið vel yfir 30.000 kr./tCO2_íg á árinu 2040. Það má því segja að skógur og aðrar landbætur verði auðlind komandi kynslóða sem er mikilvægt að byggja upp og varðveita í íslenskri eigu.

Styrkur okkar hingað til hefur verið samvinna um markmiðin (Heimsmarkmið nr. 17). Við höfum byggt upp stórkostlega hluti hingað til, nú stígum við næsta skref.

Helstu hugtök

Hér má finna útskýringar á helstu hugtökum sem koma fram á þessari síðu.

Kolefnisjöfnun

Kolefnisjöfnun er skilgreind svo í lögum um loftslagsmál: „Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti“.

Með nokkurri einföldun má því segja að kolefnisjöfnun felist í því að einstaklingar eða lögaðilar bæti fyrir eigin losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) með því að fjármagna verkefni sem a) koma í veg fyrir losun á samsvarandi magni GHL annars staðar eða b) fjarlægja samsvarandi magn GHL úr andrúmsloftinu.

Heimild: Umhverfisstofnun

Viðurkennd viðmið kolefnisjöfnunar

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að kolefnisjafna losunina að hluta til eða í heild sinni er mikilvægt að velja verkefni sem hafa raunverulegan loftslagsávinning í för með sér. Umhverfisstofnun mælir með að eftirfarandi viðmið séu í öllum tilvikum höfð til hliðsjónar við kaup opinberra aðila á kolefniseiningum:

  1. Raunverulegur árangur – verkefni fer sannanlega fram og ber tilskilinn árangur.
  2. Mælanlegur árangur – unnt er að mæla árangur með viðurkenndum aðferðum.
  3. Varanlegur árangur – árangur af verkefni er varanlegur og gengur ekki til baka.
  4. Er viðbót – árangur hefði ekki komið til án kaupa á kolefniseiningum.
  5. Ráðstafanir til að koma í veg fyrir tvítalningu– árangur af verkefni er aðeins nýttur einu sinni til kolefnisjöfnunar.
  6. Verkefni leiðir ekki til kolefnisleka – árangur byggist ekki á því að losun flytjist annað.
  7. Óháð vottun – óháður vottunaraðili staðfestir árangur af verkefni.

Heimild: Umhverfisstofnun, Græn skref

Kolefniseining

CO2-ígildi, eða koldíoxíðígildi, er sú mælieining sem er notuð til að halda utan um losunartölur fyrir gróðurhúsalofttegundir. Þannig samsvarar eitt tonn af CO2-ígildi einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra gróðurhúsalofttegunda (t.d. metans, glaðlofts eða F-gasa) sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt (e. global warming potential).

Talað er um hlýnunarmátt mismunandi gróðurhúsalofttegunda. Vegna þess hvað losun koldíoxíðs er margfalt meiri en losun annarra gróðurhúsalofttegunda er það mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin. Engu að síður er mikilvægt að taka tillit til ólíkra áhrifa mismunandi lofttegunda þegar meta á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Í þessu skyni er hverri lofttegund því gefinn tiltekinn stuðull sem miðast við þessi ólíku hlýnunaráhrif og öll losun er síðan umreiknuð yfir í CO2-ígildi.

Heimild: Loftslagsráð

Koldíoxíðígildi (CO2-ígildi)

Eitt tonn af koldíoxíðígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.

Heimild: Reglugerð um skráningarkerfi með losunarheimildir

Vottuð kolefniseining í bið

Vottuð kolefniseining í bið er kolefniseining sem eru skráð er í Loftslagsskrá sem vottuð óstaðfest kolefniseining sem verður virkjuð eftir ákveðin tíma þegar binding hefur verið staðfest.

Til að votta kolefniseiningu þarf að fara eftir vottuðum stöðlum og vottunaraðili þarf að taka út hvort að framleiðandi fari eftir stöðlum við framleiðslu á kolefniseiningum, þ.e. standi við þær skuldbindingar sem þarf að standa við til að fá vottun.

Þá er mikilvægt að ekki verði til tvítalning (e. Double-counting) á kolefniseiningum þegar kemur að því að nota kolefnisbindingu til að jafna á móti losun þannig að enginn vafi leiki á fullyrðingum um kolefnishlutleysi. Þetta er tryggt með því að skrá kolefniseiningar í sérstaka kolefnisskrá. Í kolefnisskránni er haldið utan um inneign, viðskipti og afskráningu á vottuðum kolefniseiningum.

Kolefnisverkefni skulu tryggja að kolefnisbinding sé vottuð samkvæmt viðurkenndum stöðlum s.s. Skógarkolefni, VERRA - Verified Carbon Standard (VCS) eða Gold Standard. Þetta eru óháðir staðlar sem hafa verið samdir af óháðum þriðja aðila. Vottun er strangt ferli sem veitir sjálfstæða staðfestingu á losun og tryggir að kolefnisjöfnun þín sé raunveruleg og varanleg. Gæði kolefniseininga verða því ekki tryggð nema með vottun frá slíkum aðila. Þegar þú velur kolefnisbindingu skaltu leita að annað hvort vottuðum eða a.m.k. staðfestum verkefnum til að tryggja gæði fjárfestingar þinnar og að um ósvikna kolefnisbindingu sé að ræða.

Heimild: Skógræktin

Valkvæð kolefnisbinding

Viðskipti með kolefniseiningar fara að miklu leyti fram á svokölluðum valkvæðum kolefnismörkuðum (e. voluntary carbon markets). Seljendur á slíkum mörkuðum geta verið t.d. fyrirtæki, sjóðir og stofnanir sem hafa milligöngu um að veita fé í verkefni á sviði kolefnisjöfnunar. Einnig tíðkast að kolefniseiningar séu keyptar beint af framkvæmdaraðilum verkefna. Kaup á kolefniseiningum í gegnum valkvæða kolefnismarkaði er svokölluð valkvæð kolefnisbinding, eða valkvæð, óstaðfest eða óvottuð kolefniseining. Þessar einingar eru ekki skráðar í Loftslagsskrá og því ekki skáðar hjá alþjóðastofnunum.

Heimild: Loftslagsráð, Innviðir kolefnisjöfnunar á Íslandi

Hafa samband

Ef þú vilt fá frekari upplýsingar þá endilega hafðu sambandi við okkur með tölvupósti á service@klappir.com